SÝNING
/ EXHIBITION
Setustofa
17.01.–14.04.26

Andrá

Þórdís Jóhannesdóttir

OPNUN
/ Opening:

Laugardaginn, 17.01.26
KL. 15 – 17

 

Á sýningunni Andrá má sjá seríu nýrra ljósmyndaverka eftir Þórdísi Jóhannesdóttur sem eru afrakstur vinnustofudvalar í Kaliforníu á síðasta ári. Í verkunum fangar Þórdís töfrandi augnablik sem birtast við samruna manngerðra forma og sólarljóss. Verkin eru í grunninn ljósmyndir, en í meðförum listakonunnar, þar sem myndirnar eru prentaðar á formbeygt plexigler, ummyndast þær í gegnsæa veggskúlptúra. Í þessu gegnsæja formi mynda ljósmyndirnar samtal við rýmið þar sem þær hleypa birtu í gegn og endurkastast á veggi sýningarrýmisins. Ljósmyndin verður aftur þrívíð eins og veruleikinn sem hún er fönguð úr, en á nýjan hátt. Þegar birtan liðast um sýningarrýmið breytast verkin; þau verða skýrari eða daufari, taka á sig nýjar áherslur eða jafnvel ný form. Verkin eru því aldrei stöðug - þau eru í sífelldu samtali við umhverfið, rétt eins og efnið sem þau sýna.

Þórdís Jóhannesdóttir nam myndlist við Listaháskóla Íslands; lauk B.A.-námi árið 2007 og M.A.-námi árið 2015. Hún hefur verið virk í sýningarhaldi síðan og tekið þátt í fjölmörgum sýningum innan lands og utan. Af nýlegum sýningum mætti nefna sýninguna Gerð, sem var hluti af Ljósmyndahátíð 2025 og einkasýninguna Millibil í Listasafni Árnesinga 2024. Ljósmyndir eru grunnurinn að verkum Þórdísar. Hún brýtur upp á ljósmyndina, teygir hana og togar bæði í yfirfærðri og bókstaflegri merkingu orðanna.