JÓLASÝNINGIN
2.des - 23.des 2022

Arnar Ásgeirsson, Arnfinnur Amazeen, Baldur Kristjánsson, Baldvin Einarsson,Elín Hansdóttir, Elísabet Anna Kristjánsdóttir, Elísabet Davíðsdóttir, Flaviu Cacoveanu, Guðný Rósa Ingimarsdóttir, Guðjón Ketilsson, Guðlaug Mía Eyþórsdóttir, Guðmundur Ingólfsson, Gunnar Sverrisson, Hekla Dögg Jónsdóttir, Hildur Elísa Jónsdóttir, Hjördís Gréta Guðmundsdóttir,Joe Keys, Katrín Agnes Klar, Katrín Elvarsdóttir, Kjartan Hreinsson, Klemens Nikulásson Hannigan, Martha Lyons Haywood, Ólöf Bóadóttir, Patricia Carolina, Ragnar Axelsson, Saga Sigurðardóttir, Sigurður Árni Sigurðsson, Styrmir Örn Guðmundsson, Svanhildur Gréta Kristjánsdóttir, Una Björg Magnúsdóttir, Þór Vigfússon, Þórsteinn Svanhildarson.  

Jólasýningin 2022 var sölusýning á verkum 32 samtímalistamanna og ljósmyndara í sýningarstjórn Olgu Lilju Ólafsdóttur. Sýningin stóð frá 3.des - 23.desember 2022.

Nostalgía – söknuður eftir liðnum tíma.

Jólin eru án efa sá árstími sem að nostalgían grípur okkur mest. Við þekkjum öll þessa þörf að halda í gamlar hefðir, smákökuuppskrift ömmu er dregin fram, lesið og spilað í náttfötum á jóladag, kæsta skatan og möndlugrauturinn – allt verður helst að vera eins og það hefur alltaf verið.

Það var einlæg von mín þegar við héldum fyrstu jólasýninguna í Ásmundarsal árið 2018 að okkur tækist að skapa nýja hefð sem myndi festast í sessi og verða ómissandi í jólahaldinu. Hugmyndin kviknaði fyrst á sumarsýningu Royal Academy of Arts (RA) í London, en sú sýning hefur verið haldin óslitið frá árinu 1769. Á þeim vettvangi koma saman hundruð sjónlistamanna, jafnt þekktir sem óþekktir, og skapast alveg einstök orka. Þegar ég kafaði ofan í sögu Ásmundarsalar kom í ljós að sýningar af þessum toga voru haldnar þar fyrir jólin á fimmta tug síðustu aldar og sýndu margir þekktustu listamenn þjóðarinnar verk sín samhliða lítt þekktari listamönnum. Ekki var langt að sækja innblásturinn.

Nú þegar við opnum jólasýninguna í Ásmundarsal í fimmta sinn vorum við svo lánsöm að fá 32 samtíma listamenn til liðs við okkur, sem allir hafa unnið verk sérstaklega fyrir þessa sýningu.

Það er sannarlega gleðiefni að á hverri aðventu hafa æ fleiri landsmenn lagt leið sína í Ásmundarsal og miðað við hvernig aðsóknin hefur þróast getum við átt von á að yfir fimm þúsund gestir heimsæki Ásmundarsal í desember. Ekki er síður ánægjuleg sú staðreynd að fjölmargir listamenn hafa selt sín fyrstu verk á sýningunni og þar hafa jafnframt margir gestir keypt sín fyrstu listaverk.

Svo virðist sem hefðin að senda jólakort og jólapóst sé smám saman að leggjast af. Þetta árið erum við í skemmtilegu samstarf við Póstinn um að lengja lífið í þessari hefð með því að hleypa af stokkunum sérstöku Pósthúsi í Gryfjunni í Ásmundarsal og verður það starfrækt á meðan jólasýningin er í gangi. Listamennirnir okkar hafa margir hverjir hannað jólakort og einnig mun gestum gefast kostur á að fá ljósmyndara sem taka þátt í sýningunni til að smella af sér mynd. Það eiga því margir kost á því að gleðja vini og ættingja með póstsendingu frá Ásmundarsal.

Jólin er að sönnu hátíð kærleika og friðar. Sá boðskapur á erindi við okkur nú þegar blikur eru á lofti í heiminum, en líka á friðartímum. Jólin eru áminning um mikilvægi vináttu og fjölskyldu, en vekja okkur um leið til umhugsunar og færa okkur innblástur. Jólin eru svo margt. En það er af því, að okkur hefur tekist að halda í hefðina. Þegar öllu er á botninn hvolft eru hefðir sköpunarverk okkar sjálfra – við sköpum þær á hverju ári með því að leggja rækt við þær og viðhalda þeim.

Ég vil þakka öllum sem komu að sýningu og bók og færðu með því birtu í skammdegið, en líka öllum þeim sem halda hefðinni lifandi með því að heimsækja jólasýninguna.

Aðalheiður Magnúsdóttir